Í Vesturheimi ágúst 2016
Það ríkti eftirvænting í hópi félaga Samkórs Kópavogs og fylgjarmanna þegar lagt var af stað til Vesturheims þann 28. Júlí 2016. Framundan var níu daga ferð um slóðir vestur Íslendinga í norður Ameríku og í Kanada. Fyrstu tvo dagana dvaldi hópurinn í Norður Dakota og var þátttakandi á Íslendingahátíðinni í Mountain en sú hátíð hefur verið haldin árlega í 116 ár. Kórinn söng við hátíðardagskrá í samkomuhúsi staðarins þar sem meðal annars Geir Haarde sendiherra Íslands í Bandaríkjunum og Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra Íslands ávörpuðu samkomuna en Illugi var sérstakur gestur bæði á hátíðinni í Mountain og í Gimli. Kórinn söng við góðar undirtektir viðstaddra og ætlaði þakið að rifna af húsinu þegar kórinn stýrði víkingaklappinu góða og allir viðstaddir tóku undir og sungu með kórnum lagið góða, Ég er komin heim. Á þriðja degi var haldið til Winnipeg í Kanada þar sem dvalið var í fimm daga. Daglega hélt hópurinn í skoðunar- og eða söngferðir til byggða Íslendinga sem var afar áhugavert. Kórinn söng á hátíðinni í Gimli sem haldin er 1. ágúst ár hvert en árlega sækir fjöldi manns hátíðina hvaðanæfa að. Kórinn tók þátt í skrúðgöngu um götur Gimli, kórfélagar sátu á heyböggum á stórum vagni og sungu fyrir hátíðargesti sem stillt höfðu sér upp meðfram götunum. Eftir gönguna var hátíðarsamkoma þar sem fjallkonan steig á stokk, ávörp voru flutt og kórinn söng þjóðsöngva og ættjarðarlög fyrir fjölda viðstaddra. Auk þess að syngja á hátíðunum hélt kórinn tvenna tónleika, í kirkjunni í Árborg og í Grundarkirkju sem er í Argylehéraði en þangað fluttu margir Íslendingar í lok 19. aldar. Þetta var í fyrsta skipti sem íslenskur kór syngur í Grundarkirkju en tónleikarnir voru styrktartónleikar til endurbóta á kirkjunni. Báðir tónleikarnir gengu vel fyrir fullu húsi afar þakklátra tónleikagesta. Það var upplifun ein að hitta allt þetta góða fólk sem ræktað hefur arfleið sína svo vel sem raun ber vitni. Kórinn fékk hvarvetna frábærar móttökur og mætti mikilli velvild heimamanna. Í Grundarkirkju mætti t.d. stór hópur fólks sem lagði á sig langt ferðalag í miklu óveðri til að hlýða á söng kórsins. Það var einstök stund þegar 95 ára vestur-íslensk kona, Ellen Soffía ávarpði kórinn á góðri íslensku prúðbúin í íslenskum þjóðbúningi. Í lok ferðar dvaldi hópurinn tvær nætur í Minniapolis og hélt þaðan heim, sæll og sáttur eftir viðburðarríkt ferðalag á slóðum Vestur Íslendinga
Afmæliðhátíð Samkórsins mun halda áfram nú á haustdögum en 50 ára afmælisdagur kórsins er 18. október. Tvennir hátíðartónleikar verða haldnir laugardaginn 22.október í Hjallakirkju. Einsöngvari á tónleikunum verður Sigrún Hjálmtýrsdóttir (Diddú) og píanóleikari verður Lenka Matéóva. Stjórnandi kórsins er Friðrik S. Kristinsson |
|
|
|
|
|
Skrifaðu þinn texta hér.
Flettingar í dag: 854
Gestir í dag: 57
Flettingar í gær: 248
Gestir í gær: 56
Samtals flettingar: 380593
Samtals gestir: 44997
Tölur uppfærðar: 10.11.2024 10:33:09